Höfundur franskrar bókar um rómversku borgarastyrjöldina í frönskum harmleikjum
Út er komin bókin La Guerre civile romaine dans la tragédie française (1550-1650). Poétique et politique [Rómverska borgarastyrjöldin í frönskum harmleikjum sextándu og sautjándu aldar. Skáldskaparfræði og hið pólitíska] hjá fræðiritaútgáfunni Classiques Garnier í París. Bókin kemur út í ritröðinni „Rannsóknir og ritgerðir um endurreisnartímann“ og telur 610 blaðsíður. Höfundur er Guðrún Kristinsdóttir, nýdoktor við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og stundakennari í frönskum bókmenntum við Mála- og menningardeild skólans.
Bókin er unnin upp úr doktorsritgerð sem Guðrún varði í París árið 2022 til sameiginlegrar doktorsgráðu frá Háskóla Íslands og Háskólanum Sorbonne-Nouvelle. Hún fjallar um fjórtán franska harmleiki frá árunum 1550 til 1650 sem allir hafa rómverska borgarstríðið að viðfangsefni og sögusviði. Skáldskaparfræðileg greining á leikritunum leiðir í ljós að þau taka á hugðarefnum er varða trúarbragðastríðin sem geisuðu á 16. öld og eftirmála þeirra á 17. öld, sem og uppreisnir aðalsins gegn einveldi sem þá var að festa sig í sessi.
Bókina má nálgast í Bóksölu stúdenta en einnig má panta hana eða einstaka kafla úr henni af vefsíðu bókaútgáfunnar.