Um okkur

Image
Starfsfólk í Veröld - húsi Vigdísar

Um okkur

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er grunnstofa innan Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands og lýtur sameiginlegum starfsreglum sem gilda um grunnstofur   Stofnunin hét upphaflega Stofnun í erlendum tungumálum en í október 2001, í tengslum við 90 ára afmæli Háskóla Íslands og Evrópska tungumálaárið, var samþykkt að tengja nafn Vigdísar Finnbogadóttur við stofnunina sem fékk þá heitið Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Það var gert til að heiðra Vigdísi fyrir ötult starf í þágu tungumála í störfum sínum sem kennari, þýðandi, leikstjóri, forseti Íslands og sem velgjörðasendiherra tungumála á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Hlutverk Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er:

a. að vera vettvangur rannsókna í erlendum tungumálum, kennslufræði erlendra mála, máltileinkun, málvísindum, menningarfræðum, þýðingafræðum, bókmenntum og notagildi tungumála, ein eða í samvinnu við aðra;
b. að stuðla að upplýstri umræðu á fagsviðum stofnunarinnar með því að gangast fyrir útgáfu, ráðstefnum, fyrirlestrum og hvers kyns annarri starfsemi sem stutt gæti rannsóknir og kennslu og eflt tengsl við alþjóðlegt háskólasamfélag sem og við íslenskt þjóðlíf;
c. að veita rannsóknanemum, nýdoktorum og gestafræðimönnum aðstöðu og tækifæri til rannsóknastarfa eftir því sem kostur er og efla um leið tengsl rannsókna og kennslu;
d. að styðja starfsemi Alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar.

Stofnunin er vettvangur rannsókna og útgáfu fræðimanna í Mála- og menningardeild. Hún gefur út tímaritið Milli mála sem kemur út tvisvar á ári, greinasöfn, fræðirit og þýðingar. Háskólaútgáfan sér um dreifingu rita stofnunarinnar. 

Einnig stendur stofnunin fyrir vinnustofum fyrir kennara, fyrirlestrum, ráðstefnum og málþingum. Helstu fræðasvið stofnunarinnar eru málvísindi, bókmenntir, þýðingar, annarsmálsfræði og menningarfræði.

Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur  er starfræktur í tengslum við stofnunina. Stjórn stofnunarinnar skipar Styrktarsjóðnum stjórn.

Stjórn stofnunarinnar skipar þriggja manna ritnefnd sem sér um útgáfu á hennar vegum og starfar nefndin skv. erindisbréfi stjórnar. Í ritnefnd sitja nú Birna Bjarnadóttir, Kristín Guðrún Jónsdóttir og Ásdís Rósa Magnúsdóttir.

Eftirfarandi stofur eru starfræktar innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum:

  • Fornfræðistofa
  • GLÓSA – Rannsóknastofa í orðabókafræði
  • RÍM – Rannsóknastofa í máltileinkun 
  • RÍO – Rannsóknastofa í orðasambandafræði
  • STUTT – Rannsóknastofa í smásögum og styttri textum
  • Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar (UNESCO Category 2)

Prófessorar, dósentar, lektorar og aðjunktar við Mála- og menningardeild eru félagar í Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, nema þeir óski eftir og fái aðild að annarri grunnstofu. Stundakennarar, sérfræðingar og styrkþegar stofnunarinnar, doktorsnemar á fagsviðum hennar og aðrir kennarar við Háskóla Íslands geta sótt um og fengið aðild að stofnuninni með samþykki stjórnar á meðan þeir eru í námi eða starfa við Háskólann.

Stjórnarformaður stofnunarinnar er Ásdís Rósa Magnúsdóttir: asdisrm@hi.is