
Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur áherslu á útgáfu fræðirita og þýðinga á erlendum bókmenntum.
Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu birtir ritrýndar fræðigreinar á sviði erlendra tungumála, bókmennta, þýðinga, málvísinda og menntunarfræði. Einnig birtir tímaritið þýðingar, viðtöl, ritdóma eða bókakynningar eftir því sem rúm leyfir hverju sinni. Tímaritið var gefið út í bókaformi á árunum 2009-15 en hefur verið rafrænt frá árinu 2016.
Tvímála ritröð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er ætluð unnendum erlendra fagurbókmennta og klassískra verka sem hafa áhuga á að kynna sér frumtexta við hlið þýðingarinnar. Ritröðin nýtist einnig nemendum á sviði tungumála, bókmennta og hugvísinda almennt þar sem hún auðveldar skilning á frumtexta og einkennum hans.
Með einmála útgáfu stofnunarinnar er ætlunin að kynna bókmenntir og höfunda sem eru alla jafna lítt þekktir hér á landi og fylla með því í eyður í íslenskri þýðingasögu. Leitast er við að þýða úr frummáli og fylgja ítarlegir inngangar flestum verkanna.
Smárit SVF er ný ritröð stofnunarinnar. Þeim er ætlað að miðla alls kyns fróðleik um ólíka menningarheima og hugsun. Verkin eru ýmist frumsamin eða þýdd.
Sérstök ritnefnd starfar á vegum stofnunarinnar, en hana skipa nú:
- Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, asdisrm@hi.is
- Birna Bjarnadóttir, Stephans G. Stephanssonar rannsóknasérfræðingur, birna@hi.is
- Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor í spænsku, krjons@hi.is