Header Paragraph

Molière í 400 ár: útvarpsþáttaröð á jóladagskrá Rásar 1

Image

Í tilefni 400 ára fæðingarafmælis franska gamanleikjaskáldsins Jean-Baptiste Poquelin eða Molières, standa sérfræðingar í frönskum bókmenntum við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur fyrir þáttaröð um leikskáldið og verk hans. Þáttunum verður útvarpað á jóladagskrá Rásar 1, á jóladag, annan í jólum og á nýársdag, kl. 14.

Í útvarpsþáttunum er stiklað á stóru þar sem líf og verk Molières eru sett í sögulegt samhengi. Varpað verður ljósi á ýmis sérkenni á höfundarverki hans, bæði hvað varðar leiklistarform og ákveðin þemu svo sem stöðu kvenna sem gengur eins og rauður þráður í verkum hans. Birtingarmyndir Tyrkja í leikritum hans verða settar í samhengi við þá ógn sem Frökkum stóð af heimsveldi Ottomana. Þá verður sagt frá vægi Molières fyrir Sólarleikhús frönsku leikstýrunnar Ariane Mnouchkine og það erindi sem leikrit hans eiga við Frakkland og Evrópu í dag. Leikarar Þjóðleikhússins lesa brot úr verkum hans í nýjum þýðingum auk þess sem tónlist úr leikritum hans mun hljóma. Þættirnir eru í umsjón Ásdísar R. Magnúsdóttur, prófessors í frönsku máli og bókmenntum, Irmu Erlingsdóttur, prófessors í frönskum samtímabókmenntum, Guðrúnar Kristinsdóttur nýdoktors í frönskum bókmenntum, Tobys Wikström, sérfræðings við Hugvísindastofnun, og Þrastar Helgasonar, dagskrárstjóra Rásar 1. Með samsetningu fór Guðni Tómasson.

Útvarpsþættirnir eru endapunkturinn á þrískiptri menningarveislu sem blásið var til á haustdögum til heiðurs eins ástsælasta gamanleikjaskálds sögunnar. Fyrst var leikhúsunnendum og unnendum franskra bókmennta boðið til málþings um leikrit Molières í sögu og samtíð, í Frakklandi og á Íslandi, sem fram fór þann 12. október sl. í Veröld – Húsi Vigdísar. Leikarar úr Þjóðleikhúsinu leiklásu brot úr Molière-þýðingum Sveins Einarssonar, Karls Guðmundssonar og Hallgríms Helgasonar, auk þess sem bæði Sveinn, Hallgrímur og sérfræðingar um franskar bókmenntir við Háskóla Íslands og háskólann Sorbonne-Nouvelle tóku til máls. Þá efndi Þjóðleikhúsið til leiklesturs þann 26. október sl. á nýrri þýðingu Sveins Einarssonar á Ímyndunarveikinni sem hve mestum vinsældum hefur átt að fagna á Íslandi af öllum verkum leikskáldsins. Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikstýrði 12 leikurum Þjóðleikhússins við þetta tækifæri.

Að hátíðardagskránni standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Þjóðleikhúsið, franska sendiráðið á Íslandi, Ríkisútvarpið Rás 1 og Alliance française í Reykjavík. Hátíðardagskráin er hluti af verkefninu „Franska bylgjan í íslensku leikhúsi“ sem styrkt er af Rannís og leitt af Ásdísi R. Magnúsdóttur og Irmu Erlingsdóttur.

Image