Header Paragraph

Ný bók með íslensk-kanadískum smásögum

Image

Út er komin bókin Að vestan. Íslensk-kanadískar smásögur með úrvali af sögum eftir W. D. Valgardson, David Arnason og Kristjönu Gunnars í þýðingu Guðrúnar Bjarkar Guðsteinsdóttur, prófessors í breskum og norðuramerískum bókmenntum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.

Guðrún Björk ritaði einnig formála sem rekur stuttlega framsækin smásagnaskrif Vestur-Íslendinga, kynnir smásögur og sagnasveiga í Kanada og framlag þessara þriggja margrómuðu rithöfunda til þróunar þeirra. Ritstjóri er Birna Bjarnadóttir, rannsóknasérfræðingur við Háskóla Íslands, og útgefandi er Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Háskólaútgáfan, styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta, Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli við HÍ og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.

Í bókinni eru fimmtán smásögur sem ekki hafa birst áður á íslensku. Að efni og stíl eru sögurnar fjölbreyttar og grípandi, og sögusviðið er víðfeðmt, spannar allt frá Íslandi og sléttum Norður-Ameríku vestur á Kyrrahafsströnd – allt frá fyrri öldum og fram á okkar daga. Frásagnargleðin er í fyrirrúmi og leiðir lesandann í nýja og óvænta hugarheima.

Guðrún Björk stundaði nám við Háskóla Íslands og Albertaháskóla í Kanada. Hún hefur fjallað um bókmenntaarfleifð íslenskra innflytjenda í Norður-Ameríku og afkomenda þeirra í háskólakennslu, ræðu og riti, hérlendis og erlendis. Var um árabil aðalritstjóri kanadísku fræðiritraðarinnar NACS Text Series og ritstýrði nokkrum bókum á því sviði, en einnig sérhefti Ritsins: Vesturheimsferðir í nýju ljósi (2014) ásamt Úlfari Bragasyni og Birni Þorsteinssyni. Eftir hana liggja greinar og bókakaflar á ensku og íslensku, á liðnu ári um tvítyngda leikgleði Káins í tímaritinu Milli mála og bókinni Tungumál í víðu samhengi. Á þessu ári er meðal annars væntanleg grein um Winnipeg-smá­söguna „Vonir“ eftir Einar Kvaran í bókinni Icelandic Heritage in North America hjá Háskólaútgáfu Manitobaháskóla.

Image