Reglur Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum

1.grein

Almennt

Rannsóknastofa í smásögum og styttri textum er starfrækt við Háskóla Íslands í samræmi við 4. grein reglna um Hugvísindastofnun. Hún heyrir undir Hugvísindasvið og starfar innan vébanda Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

2. grein

Hlutverk og markmið

Rannsóknastofa í smásögum og styttri textum er vettvangur fyrir rannsóknir, þýðingar og miðlun á smásögum og styttri textum fyrir fræðimenn og þýðendur úr ólíkum áttum. Með styttri textum er meðal annars átt við örsögur, brot, exempla, anekdótur, ævintýri, þjóðsögur, fabúlur, strengleika/stuttar ljóðsögur og esseyjur.

Markmið Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum eru að:

  • standa fyrir málstofum, málþingum og ráðstefnum,
  • skipuleggja rannsóknarverkefni og eiga aðild að þeim,
  • beita sér fyrir útgáfu efnis um smásögur og styttri texta,
  • beita sér fyrir þýðingum og útgáfu á smásögum og styttri textum,
  • leiða saman höfunda, þýðendur og fræðafólk úr ólíkum greinum og tungumálum,
  • stuðla að samstarfi við stofnanir innan og utan Háskóla Íslands.

3. grein

Aðild

Rétt til aðildar að stofunni eiga allir þeir sem stunda rannsóknir eða þýðingar á smásögum og styttri textum. Stjórn stofunnar er heimilt að veita öðrum fræðimönnum eða doktorsnemum, sem þess óska, aðild.

4. grein

Stjórn, fundir og fjármál

Rannsóknastofan skal hafa þriggja manna stjórn sem kjörin er til tveggja ára í senn á aðalfundi. Stjórnarseta er ólaunuð. Að lágmarki skal einn stjórnarmaður vera fastur starfsmaður Hugvísindasviðs og formaður stjórnar skal alltaf koma úr röðum fastra starfsmanna sviðsins. Formaður stjórnar er valinn á aðalfundi en stjórnin kemur sér saman um hver gegni hlutverki varaformanns. Stjórn Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum skal halda a.m.k. einn stjórnarfund á ári, auk aðalfundar, og senda Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum upplýsingar, þegar kallað er eftir þeim, til birtingar í ársskýrslu.

Rannsóknir innan Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum eru að jafnaði fjármagnaðar með styrkjum og vinnuframlagi fastra starfsmanna. Rannsóknastofa í smásögum og styttri textum nýtur ekki fastra fjárframlaga frá Hugvísindasviði, Hugvísindastofnun eða Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, en getur sótt um starfstengda styrki.

Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum leitast til við að veita stofunni aðstöðu og hlutdeild í fjárveitingu sem tengist verkefnum innan stofnunarinnar, eftir því sem henni er kleift og stjórn ákveður.

Reglur Rannsóknastofu í smásögum og styttri textum eru staðfestar af stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Hugvísindastofnun.