Afmæli Birnu Arnbjörnsdóttur fagnað í Veröld
Afmælishátíð var haldin í dag í Veröld – húsi Vigdísar í tilefni sjötugsafmælis Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors í annarsmálsfræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands.
Birna á að baki glæstan starfsferil við Háskóla Íslands en hún hefur á síðustu áratugum verið afkastamikill fræðimaður og gegnt fjölmörgum trúnaðar- og stjórnunarstörfum, jafnt innan Háskólans sem utan. Eftir doktorsnám í almennum málvísindum við Texas-háskóla í Austin í Bandaríkjunum stýrði Birna kennaradeild Notre Dame-háskóla í New Hampshire í ensku sem öðru tungumáli en hóf svo störf við Háskóla Íslands árið 2002 þar sem hún hefur gegnt stöðu prófessors frá 2008. Birna var deildarforseti Mála- og menningardeildar, sat um árabil í stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og var forstöðumaður stofnunarinnar árin 2018-2020. Hún situr nú sem fulltrúi Íslands í stýrihópi og undirbúningsnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna vegna alþjóðlegs áratugar frumbyggjamála (IDIL 2022-2032).
Með rannsóknum sínum og frumkvöðlastarfi hefur Birna beint sjónum að fjölbreyttum sviðum málvísinda, s.s. íslensku í Norður-Ameríku, sambýli ensku og íslensku hér á landi, akademískri ensku, tvítyngi og málanámi, kennslufræði erlends og annars máls og tölvustuddu málanámi og -kennslu (CALL). Hún hefur verið verkefnisstjóri vefnámskeiðsins Icelandic Online frá upphafi og skrifað fjölda kennslubóka, fræðirita og fræðigreina.
Fjölmenni var á afmælishátíðinni þar sem haldin voru erindi, afmælisrit til heiðurs Birnu kom út, Pétur Ben flutti tónlistaratriði og gjafir og kveðjur bárust víða að. Þau sem héldu ræður á hátíðinni voru Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Ásdís Rósa Magnúsdóttir, forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Auður Hauksdóttir, prófessor emerita, Höskuldur Þráinsson, prófessor emeritus, Hafdís Ingvarsdóttir, prófessor emerita og Kolbrún Friðriksdóttir, aðjunkt í íslensku. Auk þess afhenti Branislav Bédi, verkefnastjóri hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Birnu afmælisritið Tungumál í víðu samhengi og fyrrum samstarfsmenn og doktorsnemar hennar stigu á stokk með stutt innslög í dagskrána.
Við óskum Birnu Arnbjörnsdóttur hjartanlega til hamingju með afmælið um leið og við þökkum hennar mikla og fórnfúsa framlag til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
Tungumál í víðu samhengi, afmælisrit til heiðurs Birnu, er hægt að sækja í rafrænni útgáfu hér.
Meðfylgjandi myndir tók Gunnar Sverrisson.