Header Paragraph

Ársfundir haldnir

Image

Ársfundir Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar þar sem árið 2021 var gert upp, voru haldnir í Veröld – húsi Vigdísar föstudaginn 29. apríl 2022. Ásdís Rósa Magnúsdóttir forstöðumaður stýrði fundi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrri hluta dags en Ann-Sofie Nielsen Gremaud stýrði fundi alþjóðlegu miðstöðvarinnar eftir hádegi. 

Á fundunum var farið yfir starfsemi ársins 2021 sem einkenndist annað árið í röð af heimsfaraldri. Ársskýrslur voru kynntar, ársreikningar lagðir fram og farið var yfir starfið framundan. Ársskýrslu beggja stofnana fyrir árið 2021 má finna hér.

Stjórn Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum er skipuð Ásdísi R. Magnúsdóttir stjórnarformanni, Oddnýju G. Sverrisdóttur, Kristínu Ingvarsdóttur, Geir Þórarni Þórarinssyni og Jónu Guðrúnu Guðmundsdóttur, sem er fulltrúi doktorsnema. Varamenn í stjórn eru Gísli Magnússon og Erla Erlendsdóttir.

Í stjórn alþjóðlegrar miðstöðvar sitja fyrir hönd Háskóla Íslands Ann-Sofie Nielsen Gremaud stjórnarformaður, Geir Sigurðsson og Sofiya Zahova, Guðrún Kvaran er fulltrúi ríkisstjórnar, Irmgarda Kasinskaite er fulltrúi aðalframkvæmdastjóra UNESCO og Sæunn Stefánsdóttir er fulltrúi íslensku UNESCO-nefndarinnar. 

Í lok ársfundar alþjóðlegrar miðstöðvar voru Ásdísi R. Magnúsdóttur, prófessor í frönskum fræðum færðar þakkir fyrir framlag sitt til miðstöðvarinnar, en hún sinnti stöðu stjórnarformanns til ársloka 2021. Voru henni færð blóm sem þakklætisvottur frá starfsmönnum og stjórn miðstöðvarinnar.

Image