Header Paragraph

Milli mála 2021 komið út

Image

Út er komið þrettánda hefti tímaritsins Milli mála hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Milli mála er gefið út í opnum vefaðgangi, millimala.hi.is. Ritstjórar heftisins eru Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum, og Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku. 

Í nýjasta hefti Milli mála eru átta ritrýndar greinar. Birna Arnbjörnsdóttir skrifar um notkun stafrænnar tækni í kennslu íslensku sem annars máls; Þórhildur Oddsdóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Vár í Ólavsstovu, Eeva-Liisa Nyqvist og Bergþóra Kristjánsdóttir birta grein um kennslu dönsku og sænsku sem annars máls; og Núria Frías Jiménez og Carmen Quintana Cocolina skrifa um spænskukennslu á háskólastigi. Erla Erlendsdóttir og Oddný G. Sverrisdóttir skrifa um orðapör í íslensku, þýsku og spænsku, Rósa Elín Davíðsdóttir fjallar um skráningu orðastæðna í tvímála orðabókum og Yuki Minamisawa skrifar um notkun íslenska atviksorðsins „gersamlega“. Að lokum eru í ritinu tvær greinar um bókmenntir eftir Danila Sokolov og Ásdísi Rósu Magnúsdóttur en bæði skrifa þau um bókmenntagreinar þar sem ástin er hefðbundið viðfangsefni. Danila fjallar um skáldlega óvissu og sjálfhverfu lýrísks kveðskapar á ensku á síðari hluta 16. aldar en grein Ásdísar Rósu fjallar um ævintýrabókmenntir sem voru ný bókmenntagrein í frönskum bókmenntum 17. aldar. 

Auk ritrýndra greina birtast í heftinu þýðingar úr fjórum tungumálum auk formála þýðendanna. Þórir Jónsson Hraundal hefur þýtt úr arabísku frásögn Ahmad ibn Muhammad ibn Ya‘qub ibn Miskawayh af ferðum víkinga til Kákasusfjalla um miðja 10. öld en víkingar sátu um borgina Barda (í núverandi Azerbaijan) árið 943. Rúnar Helgi Vignisson birtir þýðingu sína á sögunni „Rip Van Winkle“ eftir bandaríska rithöfundinn Washington Irving (1783–1859). Atli Vilhelm Harðarson hefur þýtt úr nýgrísku ljóðið „Kettir heilags Nikulásar“ og kynnir höfundinn Giorgos Seferis, sem hlaut bókmenntaverðlaun Nóbels árið 1963. Að lokum eru tvær örsögur eftir kúbverska höfundinn Virgilio Piñera Llera í þýðingu Erlu Erlendsdóttur.

Skilafrestur greina og þýðinga í næsta hefti Milli mála er 1. apríl 2022. Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu tímaritsins, millimala.hi.is, og hjá ritstjórum þess, Geir Þórarni Þórarinssyni (gtt@hi.is) og Þórhildi Oddsdóttur (thorhild@hi.is).