Tvö ný hefti „Milli mála – tímarits um erlend tungumál og menningu“
Út eru komin hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, tvö ný hefti Milli mála – tímarits um erlend tungumál og menningu.
Fyrra hefti 14. árgangs er sérhefti sem ber yfirskriftina Nýjar rannsóknir í annarsmálsfræðum og fjöltyngi á Íslandi en gestaritstjóri þess var Birna Arnbjörnsdóttir. Síðara hefti 14. árgangs er almennt hefti og voru ritstjórar þess Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum, og Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku.
Milli mála er gefið út í opnum vefaðgangi, millimala.hi.is. Framvegis munu koma út tvö hefti á ári. Verður fyrra heftið sérhefti tileinkað afmörkuðu viðfangsefni, en almennt hefti mun koma út fyrir lok hvers árs. Sérhefti ársins 2023 mun bera yfirskriftina Skáldið, taóið og dulspekin og fjalla um áhrif daoisma og dulspeki í verkum Halldórs Laxness og túlkun hans á þeim. Gestaritstjóri verður Geir Sigurðsson.