Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um franska harmleiki

Image

Guðrún Kristinsdóttir hefur varið doktorsritgerð sína í frönskum fræðum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og í frönskum bókmenntum og menningu við Université Sorbonne-Nouvelle Paris 3. Ritgerðin ber titilinn La guerre civile romaine dans la tragédie française (1550-1650). Analyse poétique et politique. Leiðbeinendur voru Hélène Merlin-Kajman, prófessor emerita í frönskum bókmenntum 17. aldar við Sorbonne-Nouvelle, og Ásdís R. Magnúsdóttir, prófessor í frönsku máli og bókmenntum við Háskóla Íslands. Andmælendur við vörnina voru, auk leiðbeinenda, Emmanuel Buron, prófessor í frönskum bókmenntum 16. aldar við Sorbonne-Nouvelle, Jean-Charles Monferran, prófessor í frönskum bókmenntum 16. aldar við Sorbonne-háskóla, og Toby Wikström, rannsóknarsérfræðingur við Hugvísindastofnun Háskóla Íslands. Áður höfðu Clotilde Thouret, prófessor í frönskum bókmenntum 17. aldar við Université de Lorraine-Nancy, og Jean-Charles Monferran, prófessor í frönskum bókmenntum 16. aldar við Sorbonne-háskóla, metið ritgerðina hæfa til varnar og ritað skýrslu þess efnis. Í doktorsnefnd sátu Catherine Croizy-Nacquet, prófessor í frönskum miðaldabókmenntum, og Marc Hersant, prófessor í frönskum bókmenntum 18. aldar, bæði við háskólann Sorbonne-Nouvelle. Jean-Charles Monferran prófessor stýrði athöfninni sem fram fór þann 20. janúar sl. við Sorbonne-Nouvelle.

Um ritgerðina

Rannsóknarspurningin sem liggur að baki ritgerðinni lýtur að pólitískri þýðingu franskra harmleikja sem höfðu Rómaveldi til forna sem sögusvið. Ritgerðin fjallar um fjórtán leikrit frá tímabilinu 1550 til 1650 sem settu á svið atburði úr rómversku borgarastyrjöldinni. Með nákvæmri greiningu er sýnt fram á að harmleikirnir tjá margvíslegar pólitískar hugmyndir og afstöðu og að sumir þeirra varpa ljósi á pólitískar aðstæður tengdar trúarbragðastríðunum í kjölfar siðbótar og síðar uppgangi einveldis í Frakklandi. Harmleikirnir, sem eru hvorki pólitísk rit né fræðirit í hefðbundnum skilningi, tjá þessi átök með fagurfræðilegum hætti í gegnum texta hvers leikrits. Pólitískur lestur þeirra krefst því skáldskaparfræðilegrar greiningar. Niðurstöður leiddu í ljós að saga rómversku borgarastyrjaldarinnar var allegórískur efniviður umræddra leikrita og jafnframt sameiginlegur tjáningarmiðill höfundanna og ákveðinna sögulegra persóna. Einkum gaf saga Rómverja tilefni til að vísa í þá pólítísku þrískiptingu sem ríkti í Frakklandi á tímabilinu. Notkun efniviðarins reyndist breytileg eftir tengslum höfunda við andstæðar fylkingar (mótmælendur, kaþólska harðlínumenn og konungssinna) og einnig eftir ritunartíma verkanna. Þannig voru leikritin á 16. öld leið hinna sigruðu til að tjá sigurvegurunum sorg sína; á 17. öld var sjónum beint að minningu hinna sigruðu eftir því sem einveldi festi sig í sessi.

Um doktorinn

Guðrún Kristinsdóttir lauk námi í leiklist við leiklistarskólann Atelier d’expression d’art dramatique Radka Riaskova í París, BA-gráðu í frönsku og almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, MBA-gráðu við ESCP Europe í París og MA-gráðu í frönskum fræðum við Háskóla Íslands. Hún starfar nú sem nýdoktor við Mála- og menningardeild að verkefninu Franska bylgjan í íslensku leikhúsi 1960-2000 sem styrkt er af RANNÍS.

Image